tannverkur

 

Tannverkur getur verið af mörgum toga og oft er hægt að lina verki í tönnum með einföldum ráðum.  Alltaf er best að fá greiningu hjá tannlækni á vandamáli og fyrirbyggja að ástand versni.

Fyrsta ráð er að bursta tennur vandlega og fara með tannþræði á milli tanna.  Stundum getur verkur stafað af tannsteini eða matarleifum sem sitja fastar milli tanna og valda bólgu í tannholdi.  Slík bólga í tannholdi getur lýst sér með óljósum tannverk sem venjulega gengur fljótt niður með góðri tannhreinsun.  Dugi það ekki er ráðlegt að taka verkjalyf s.s. paratabs eða ibufen og hafa samband við tannlækni hætti verkur ekki.

Tannverkur stafar oftast af tannskemmdum og lýsir sér þá gjarna þannig að tennur verða viðkvæmar við sætindum eða kulda (köldu vatni t.d.).  Þá er skemmdin orðin það djúp að hún hefur áhrif á taug tannarinnar.    Þá er ráðlegt að forðast allt sem ertir tönn eða kemur verk af stað og halda tönnum vel hreinum og hafa samband við tannlækni við fyrsta tækifæri.

Tannverkur er stundum þannig að hann varir í lengri tíma í einu (t.d. lengur en mínútu).  Tannlæknir hugar að hvort verkur komi við kulda á tönn og/eða hita á tönn.  Þá skiptir máli hvort tönn sé aum við áslátt eða samanbit.  Ef verkur varir í lengri tíma og hverfur ekki af sjálfu sér eru líkur til að rótfylla þurfi tönn (sjá rótfyllingar hér á síðunni).

Sé tannverkur mikill og stöðugur þarf alltaf að leita til tannlæknis, sem metur hvað sé ráðlegast að gera. 

Tannverkur getur verið af völdum sýkingar við tennur og getur þurft að nota sýklalyf til meðhöndlunar.   Stundum eru slíkar sýkingar við áður rótfylltar tennur.   Þá geta sýkingar verið í kringum hálfuppkomnar tennur og er slíkt algengast við endajaxla.

 

Additional information